World Wide Hair Tour 2022


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Amber hárstofu á Akureyri-

Word Wide Hair Tour 2022 var haldið 4.-7. júní í Parma á Ítalíu, á heimaslóðum Davines. Þvílíka upplifunin! 3500 fagmenn alls staðar að úr heiminum saman komnir til þess að skemmta sér, læra og fá innblástur. Og óvá, Davines stóð sig svo sannarlega vel að uppfylla það og meira til. Heimsókn í Davines Þorpið, móttöku dinner, svaka partý og þvílíkt flottar sýningar frá flottustu hársnyrtum Davines, þessi viðburður var algjörlega magnaður í alla staði. Þar að auki leggur Davines mikla ástríðu í sjálfbærni og var fyrirtækið duglegt að deila með okkur hvernig stuðlað er að því innan fyrirtækisins og hvernig við getum tekið þátt. En byrjum á byrjuninni.

Heimsókn í Davines Village

Ítalir kunna svo sannarlega að skapa upplifun fyrir fólk! Fyrsta daginn var tekið vel á móti okkur í Davines Village þar sem öll starfsemi Davines fer fram, Rannsóknir, tilraunir, framleiðsla, ræktun og allt þar á milli. Vinnuaðstaðan er svo stílhrein og flott að það veitir manni hugarró og innblástur að vera þarna, hönnuð með gagnsæi í huga enda gluggar alls staðar svo hægt er að dást að garðinum í kring. Úti á túni var svo búið að koma fyrir hátölurum með róandi tónlist á meðan labbað var að ræktuninni, þar sem tilraunir fóru fram með að rækta ýmsar plöntur sem notaðar eru í Davines vörurnar. Heilbrigður jarðvegur = Heilbrigt hár, meira um það seinna. Þar í leiðinni fengum við að sá okkar eigin fræjum sem vonandi verða farin að spretta næst þegar við förum þangað í heimsókn.

Eftir allt þetta er fjörið rétt að byrja, því næst var okkur boðið upp á drykki og nasl í garði sem ég kemst næst því að þýða sem Vísinda garðurinn. Þar eru allskonar plöntur og blóm ræktuð með mismunandi tilgang, eins og t.d. fyrir ilm þeirra eða lit. Þarna í nágrenninu var okkur einnig boðið upp á herðanudd og núvitundar slökun, sem jafnaðist alveg á við góðan sálfræðitíma. Eins og ég segi, Ítalir kunna sko alveg að skapa upplifun fyrir fólk.

Um kvöldið voru svo þessir flottu tónleikar með Symphoniacs í miðbæ Parma en þeir voru hluti af nokkurs konar bæjarhátíð sem Davines hafði sett upp í kringum viðburðinn, þvílíkt flottir. Næsta dag hefst svo WWHT2022 af alvöru. 

Móttöku dinner

Þessi mynd segir allt sem segja þarf. Viðburðurinn var haldinn í Palaverdi, 17.000 fermetra ráðstefnuhúsi sem tekur við allt að 4000 manns. Innkoman í salinn var á öðru leveli. Búið var að setja upp tjöld og myndvarpa eins og maður væri að labba í gegn um skóg og míkrófónar sem fólk gat tekið í sem létu allt hljóma eins og fjarstæð hljóð í skóginum, enda var þema viðburðarins Into the woods. Þegar komið var inn í salinn var búið að dekka upp hringborð fyrir ca. 3500 gesti og boðið var upp á fjögurra rétta matseðil og nóg af víni, eins og Ítölum er lagið. Hugsið ykkur hvernig ástandið hefur verið í eldhúsinu!

Sýningarnar

Næstu tvo daga voru sýningar og fyrirlestrar. Hljómar kannski ekki spennandi, og í hreinskilni sagt þá voru þau mis spennandi, en heilt yfir mjög skemmtilegt, fróðlegt og flott og veitti manni gífurlegan innblástur. Ekki bara sem hársnyrti heldur líka sem lifandi mannveru í nútímanum, frá sjónarmiði umhverfisvitundar og núvitundar.

Eftirminnilegasta sýningin var án efa Tom Connell, titlaður Hair Art Director hjá Davines. Hann hafði margt áhugavert fram að færa sem fór ekki það langt út fyrir kassann að hægt er að nota það í hversdagsleikanum. 

 

Þar að auki er vert að minnast á Roberta Beta sem vann Talent Greenhouse keppni sem Davines heldur utan um. Það er keppni sem allir hársnyrtar geta tekið þátt í hvaðan sem er úr heiminum og hafa þá tækifæri til þess að læra af nokkrum flottustu hársnyrtum heims og sá sem vinnur fær pláss á WWHT til þess að sýna verkin sín. 

Aðrir hársnyrtar sem sýndu verkin sín voru Anna Pacitto, Mirela Zen, Candice McKay, Jesus Oliver og Allilon, fyrirtæki sem býður hársnyrtum yfir 70 kennslumyndbönd á netinu í klippingum og litunum.

Sjálfbærni -> Endurnýjun

Á milli þess sem hársnyrtilistamenn sýndu verkin sín var mikið rætt um sjálfbærni, umhverfisvitund, jafnrétti og aðal dagurinn endaði á núvitund og slökun. Rökfræði Davines er í grunnin rosalega einföld þar sem heilbrigður jarðvegur = hollur matur = heilbrigt fólk, þar af leiðandi hlýtur heilbrigður jarðvegur = heilbrigt hár. En Davines hefur hingað til sett sjálfbærni í fyrsta sæti, sem þýðir að umhverfinu er skilað eins og komið var að því, þá bæði náttúrunni og samfélaginu. Nú ætlar fyrirtækið að taka næsta skref og vinna að endurnýjun (regeneration), þá er umhverfinu ekki aðeins skilað eins og komið var að því heldur er það betrumbætt að einhverju leyti. Þó svo að margar reglur Davines snúi að náttúrunni er það ekki aðalmálið, í raun snýst þetta um að gera hvað sem hægt er að gera til þess að bjarga mannkyninu og stuðla að betra lífi fyrir okkur. Þess vegna snúast gildi Davines ekki aðeins um að bjarga plánetunni, þó svo að það sé stærsta áherslan, heldur líka samfélaginu. Bætt pláneta þýðir heilbrigðara mannkyn og samfélag. Davines hefur gert gríðarlega mikið fyrir sitt nærumhverfi, s.s. Parma, og einnig fyrir hársnyrtisamfélagið. Bara með því að halda þennan magnaða viðburð og Talent Greenhouse keppnina er fyrirtækið að sameina hársnyrta út um allan heim og myndar þannig gríðarlega fallegt samfélag. 

Ég fann innblástur í allri þessari umræðu um sjálfbærni og heilbrigði og fyrir vikið langaði mig helst að drífa mig heim, pakka öllu sem ég á í tösku og flytja til Ítalíu til þess að vinna hjá þessu fallega fyrirtæki. Áfram Davines! 

Bestu kveðjur,
Ísey


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published