World Wide Hair Tour 2019
World Wide Hair Tour á Íslandi

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að stærsta hársýning Íslandssögunnar var haldin í Hörpu í vikunni. 1500 gestir heimsóttu Ísland og nutu lífsins með Davines í undursamlega skreyttri Hörpu. Hátíðin var öll hin glæsilegasta og sýningarnar hver annarri betri. 

Þessi vegferð hófst fyrir rúmum tveimur árum þegar Baldur Rafn fór fyrst að tala um hvað Ísland væri fullkominn áfangastaður fyrir World Wide Hair Tour. Það ætlaði allt gjörsamlega að tryllast á síðustu hátíð þegar Ísland var kynnt sem næsti áfangastaður og aldrei hefur selst eins hratt upp! 

Hátíðin var skipulögð af Davines á Ítalíu með aðstoð Saga Events á Íslandi. Hún er á meðal stærstu einkaviðburða sem haldnir hafa verið á Íslandi og fátítt að einkaaðilar leigja alla Hörpuna eins og hún leggur sig! Öll framkvæmdin gekk afar vel fyrir sig og hátíðin einstaklega vel heppnuð landkynning. 

Sunnudagurinn: Sýnisferðir um Ísland og trjáplöntun

Hátíðin hófst á því að erlendu gestirnir fóru í sýnisferðir um landið og svo í Þorláksskóga til að taka þátt í sérstöku trjáplöntunarverkefni til að kolefnisjafna fyrir ferðina. Davines á Íslandi mun viðhalda þessum skógi á næstu 20 árum verður þessi ferð kolefnisjöfnuð. Það er sérstakt áhersluefni hjá Davines að vera ekki aðeins best í heimi, heldur best fyrir heiminn. 

Þorláksskógur

Mánudagurinn: Sýningar og Gala dinner

Formleg dagskrá World Wide Hair Tour hófst síðan á mánudagseftirmiðdaginn með glæsilegu opnunaratriði Isaac Salido. Atriðið hans var óður til mikilfenglegra kvenna eins og Edith Piaf, Grace Kelly og Mariu Callas. 

Því næst steig á svið sigurvegari World Style Contest 2018, Annie Ankervik. Annie sýndi sniðuga tækni við að blanda textíl við fléttur og var hún einstaklega sjarmerandi á sviði. Eitt af verðlaununum sem sigurvegari WSC fær er að vera með atriði á sviði að ári svo það er ekki nóg að vera góður í faginu heldur þarf sigurvegarinn að hafa nægilegt sjálfsöryggi til að koma fram fyrir framan þúsund manns!Sýningum mánudagsins lauk með atriði frá Allilon teyminu. Þar var áherslan á liti og geómetrísk form. 

Aldrei hafa veirð fleiri dinner gestir í Hörpu og voru uppádekkuð borð í sölum og göngum. Þjónarnir höfðu í nógu að snúast að fylla á glösin og snúast í kringum alla þessa gesti. 

Þriðjudagurinn: Sýningar og partý

Dagurinn hófst með World Style Contest um morguninn og mætti fólk, skulum við segja misferskt, eftir daginn á undan... Þessi keppni er mikill stökkpallur fyrir upprennandi hárgeiðslufólk og hefur fleytt mörgum langt í sínum ferli. Verðlauna afhending var síðan seinna um kvöldið og var það ung kona frá Ítalíu sem fór með sigur úr býtum þetta árið. 

Á meðal þeirra sem sýndu á þriðjudeginum voru Brockmann und Knoedler teymið. Þau eru stórstjörnur í Þýskalandi og reka hárgeiðslustofur, akademíu og jazzhátíð svo eitthvað sé nefnt. Þeirra sýning var fáguð og yfirveguð og lagði áherslu á lífræn form og léttar hreyfingar í hárinu. 

Þegar fór að líða að aðalstjörnu hátiðarinnar, sjálfum Angelo Seminara, listrænum stjórnanda Davines fylltist Eldborgarsalurinn, setið var í hverju sæti og á göngunum. Angelo Seminara er margverðlaunarður hársnyrtir og hefur einstaklega þægilega framkomu og hreinlega hreif allan salinn með sér. Hans innblástur var íslensk náttúra og sýndi hann tækni og liti meðal annars byggða á hrauni og norðurljósum. Tónlistin og öll umgjörð var einstaklega falleg og flutningur Jófríðar Ákadóttur á Massive Attack lögunum sem Angelo valdi var draumkenndur og hrífandi eins og henni er lagið. 

Hátíðinni lauk með risastóru partýi þar sem þemað var "The Five Elements" þar sem fimmta elementið var litur. Margir höfðu lagt gríðarlegan metnað í búningana sína og að horfa yfir litríka mannmergðina var ógleymanleg sjón. DJ Margeir stóð dansvaktina og vakti heljarinnar gleði hjá gestum. 

Það er óhætt að segja að World Wide Hair Tour hafi verið eftirminnilegur viðburður í alla staði og við bíðum spennt eftir næstu hátíð í Hong Kong að ári. 


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published