Geta vítamín aukið hárvöxt?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Í dag eru til rosalega margar tegundir af hárvítamínum. Svo virðist sem allir vilji vera með hár niður á rass og það á bara að gerast á tveimur dögum. Þrátt fyrir allskonar efni og pillur sem nú eru á markaðnum þá er það bara ekki hægt. En eru öll þessi hárvítamín eitthvað að hjálpa hárinu að vaxa eða halda því heilbrigðu?
Allir þessir hárkúrar eiga það sameiginlegt að þetta er bara blanda af vítamínum og steinefnum, í mismunandi hlutföllum, sem eiga að hjálpa hárinu að vaxa hraðar. Yfirleitt er lítill munur á milli tegunda, hvort sem um er að ræða eitthvað ódýrt sem fæst í matvöruverslunum eða eitthvað rándýrt sem virðist vera gert úr gulli. Í grunninn gerir þetta allt það sama.
Til þess að vita hvernig þetta virkar og hvað á að kaupa langar mig að fara aðeins yfir það hvaða áhrif hvert vítamín hefur á heilbrigði hárs og hárvöxt.

A-vítamín

A-vítamín stuðlar að framleiðslu á olíu í hársverði sem heldur honum rökum og heilbrigðum. Hárið sjálft hefur einnig gott af þessari olíu sem við keppumst öll við að þvo úr, en með henni berast næringarefni og raki til hársins sjálfs. Einnig er talið að A-vítamín hraði á hárvexti, sem ætti að þýða að eðlilegast væri að dæla í sig A-vítamíni, en því miður virkar það ekki alveg þannig. Ef of mikið er tekið af A-vítamíni fer hárvöxturinn í „overdrive“ og getur valdið hárlosi. Þannig að þegar kemur að A-vítamíni þarf að finna hinn gullna milliveg hvað varðar inntöku.

B-vítamín 

B-vítamín er nauðsynlegt fyrir alla líkamsstarfsemi. Það spilar stóran þátt í að breyta matnum sem við borðum í orku og flytja þá orku með blóðinu til þeirra líkamsparta sem þurfa á orku að halda. Þar með talið til hársrótarinnar. Hún þarf að nota þó nokkra orku til að búa til ný hár og eftir því sem minni orka kemst þangað, þeim mun hægar vex hárið. Margir hafa heyrt talað um að bíotín (B7), fólinsýra (B9) og B12-vítamín séu sérstaklega nytsamleg hárvexti en litlar rannsóknir hafa verið gerðar varðandi það. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að ef bíotín er tekið þegar skortur er á því hefur það jákvæð áhrif á hárvöxt. Ef nóg er af því í blóðinu hefur inntaka bíotíns hins vegar lítil áhrif á hárið.

C-vítamín 

C-vítamín virkar sem andoxunarefni fyrir hárið og ver það gegn umhverfis- og öldrunaráhrifum. C-vítamín sér einnig um að koma næringarefnum til hársrótarinnar sem hjálpar til við myndun hárs. Þar að auki er C-vítamín nauðsynlegt svo líkaminn geti myndað kollagen, sem hefur verið mikið í umræðunni. Kollagen er eitt mikilvægasta prótein líkamans, en það sér til þess að allir vefir í líkamanum haldist teygjanlegir. Nánar um það á eftir hvernig það tengist hárinu. 
hárvítamín a-vítamín b-vítamín c-vítamín d-vítamín e-vítamín bíotín fólinsýra kollagen keratín bætiefni hárvöxtur hárlos sítt hár þykkt hár

D-vítamín 

D-vítamín spilar stóran þátt í að viðhalda vexti hársins. D-vítamín örvar hársrótina til að mynda keratín, sem er eitt helsta uppbyggingarefni hársins og heldur því sterku. Ef of lítið er af D-vítamíni í líkamanum hægist á keratín myndun í hársrótinni, hárið hættir að vaxa og viðkomandi getur fundið fyrir miklu hárlosi. En ef nóg er af D-vítamíni í líkamanum hefur það lítil sem engin áhrif að innbyrða meira af því. 

E-vítamín 

E-vítamín hefur lítil áhrif á hárið, nema að því leyti að eins og C-vítamín þá er það andoxunarefni sem ver hárið gegn umhverfis- og öldrunaráhrifum. E-vítamín getur þannig seinkað því hvenær hárið fer að grána og/eða þynnast vegna öldrunar.

Steinefni

Steinefni eru mikilvæg líkamanum svo hann nái að viðhalda eðlilegri starfsemi. Það er sagt að heilbrigt hár endurspegli heilbrigðan líkama og steinefnin sjá að stóru leiti til þess. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í hvað hvert og eitt steinefni gerir og hvernig það nýtist hárinu, en nokkur þeirra eru nauðsynleg til að viðhalda hárvextinum og heilbrigði hársins. Þau steinefni sem hafa beinust áhrif á hárið eru járn, joð og sink. Ef skortur er á þessum þremur efnum í líkamanum byrjar eitthvað sem hefur bein áhrif á hárvöxt að bila eins og skjaldkirtillinn eða blóðmagn breytist. Önnur steinefni sem eru góð fyrir heilbrigði hárs eru til dæmis kopar, magnesium og kalk, en þau hafa þó lítil bein áhrif á myndun eða heilbrigði hárs.

Kollagen

Ég lofaði að tala aðeins um kollagen. Það er mikið um það rætt hvort kollagen hafi einhver alvöru áhrif á hárvöxt eða heilbrigði hársins og í raun veit ég það ekki. Kollagen er ennþá of lítið annsakað til þess að hægt sé að segja til um hvort það hafi einhver bein jákvæð áhrif. En eins og ég sagði hér fyrr þá er kollagen eitt af aðal uppbyggingarpróteinum líkamans og sér það til þess að allir vefir haldist teygjanlegir. Það gagnast hárinu að því leiti að hársrótin og öll starfsemi sem þar fer fram þarf að haldast teygjanleg til að geta myndað nýtt hár. Ef hársrótina skortir kollagen verður hárið brothætt og flatt. Líkaminn framleiðir sjálfur kollagen, en um 25 ára aldur hægist á myndun þess, sem þýðir til dæmis að teygjanleiki húðarinnar minnkar og hrukkur byrja að myndast.

Keratín

Það hefur einnig mikið verið spurt um keratín meðferðir sem í raun virka mjög vel fyrir þá sem eru með mikið skemmt hár. Eins og fram hefur komið er keratín prótein í hárinu sem gerir það sterkt svo það brotni síður. Ef ysta lag hársins nær ekki vernda innra keratín-lag hársins verður það brothætt og úfið (e. frizzy). Keratín meðferð endurbyggir í raun keratín uppbyggingu hársins og lokar ysta lagi hársins þannig að það verður aftur sterkt og fallegt. 
hárvítamín a-vítamín b-vítamín c-vítamín d-vítamín e-vítamín bíotín fólinsýra kollagen keratín bætiefni hárvöxtur hárlos sítt hár þykkt hár
Þegar öllu er á botninn hvolft þá ætti maður ekki að þurfa að taka nein sérstök vítamín fyrir hárið ef líkaminn starfar rétt, efnaskipti og melting eru í lagi, og maður borðar fjölbreytta og holla fæðu. Þannig ætti maður að fá nóg af öllum vítamínum og næringarefnum til að öll líkamsstarfsemi, þar með talið hárvöxtur og heilbrigði hársins, gangi sinn vanagang. Þar að auki gagnast okkur ekki að innbyrða of mikið af vítamínum. Annaðhvort skolast þau úr líkamanum eða safnast saman í líkamanum og geta jafnvel gert illt verra.
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published