Slitið hár - hvað er til ráða?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Allt hár slitnar með tímanum. Eftir því sem hárið síkkar verður það eldra og þurrara, en einnig hefur umhverfið áhrif, steinefni í vatninu eða hitastig loftsins til dæmis. Allt er þetta fullkomlega eðlilegt og ekkert hægt að gera til að komast hjá þessu. Dagleg meðhöndlun hársins hefur þó mest áhrif á slit og henni má auðveldlega breyta. Hvernig við greiðum hárið, hvaða efni við notum og hvernig hitatæki eru notuð dagsdaglega getur skipt öllu ef safna á heilbrigðu og fallegu hári.
Hér er ég með mynd sem sýnir mismunandi gerðir af slitnu hári ásamt upplýsingum um það hvernig það gerist og hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja það.
a. Heilbrigt hár. Ysta lag hársins liggur slétt á hárstráinu og hárið glansar.
b. Ysta lag hársins farið að trosna og glansar minna. Dæmi um hár manneskju sem notar hitatæki eða blásara daglega. Þess vegna er nauðsynlegt að nota góða hitavörn og passa að hitatækin rífi ekki í hárið eða séu of heit.
c. Ysta lag hársins er orðið svo óslétt að það glansar lítið eða ekkert og virðist líflaust. Svona verður hárið ef það er t.d. mikið litað, þá sérstaklega aflitað. Einnig orsakast þetta af of mikil notkun hitatækja, mikilli notkun þurrkandi efna eins og geli eða hárspreyi eða ef léleg eða engin næring er notuð. Þegar hárið er komið á þetta stig er stutt í að það slitni. Hér er enn hægt að grípa inn í áður en hárið slitnar alveg, með því t.d. að minnka eða hætta að lita, nota minna af efnum og tækjum í hárið og nota betri vörur. Hér mæli ég sérstaklega með því að nota djúpnæringu. Djúpnæring vinnur samt engin kraftaverk nema einhverju varðandi daglega meðhöndun eða litun sé breytt líka. Ef ekkert er gert þá byrjar hárið að slitna.
d. Hér er hárið farið að slitna á miðju hárstráinu sem þýðir að of miklu afli hefur verið beitt þegar það var greitt eða teygja tekin úr. Best er að greiða hárið þurrt og byrja neðst með hárbursta sem gefur eftir þegar rekist er á flækju. Þegar það gerist skaltu taka burstann frekar úr hárinu og byrja að greiða flækjuna úr neðan frá. Ástæða þess að það er betra að greiða hárið þurrt er að þegar það er blautt minnkar teygjanleiki þess og það slitnar frekar. Einnig er sniðugt að nota gott flókasprey sem bæði gerir verkið auðveldara og færir hárinu næringu. Sumum finnst hinsvegar betra að greiða hárið blautt og fyrir suma er það eina leiðin til að ná í gegn, en þá er nauðsynlegt að hafa næringu í því. Þannig rennur burstinn betur í hárinu sem minnkar líkur á sliti.
e. Augljósasta gerð slitinna enda. Þegar hárið er farið að klofna svona í endana er nauðsynlegt að klippa það. Ef það er ekki gert getur lítið 1mm slit sem sést varla orðið að jafnvel 5cm eða meira á mjög skömmum tíma og þá þarf að klippa allt það af, í staðinn fyrir bara smá. Þetta er ástæða þess að betra er að klippa hárið reglulega ef maður er að safna. Þannig gengur söfnunin jafnvel hraðar, því það þarf að klippa minna af því, og þú endar með fallegra og heilbrigðara, sítt hár.
f. Hnútur á hárlegg getur orsakað slitna enda ef hárið er ekki greitt varlega. Það er lítið hægt að gera í þessu nema greiða hárið reglulega og varlega.
g. Þetta gerist ef hárlengingar eru ekki teknar úr varlega eða með réttum efnum. Einnig ef ekki er farið rétt að efnameðhöndlun við gerð permanents.
Þegar hárið er orðið gamalt og þurrt aukast líkurnar á að það slitni, en hægt er að gera ýmislegt til að reyna að komast hjá því. Gott er að passa hvaða meðhöndlun hárið fær dagsdaglega og nota gott sjampó, næringu og aðrar hárvörur. Einnig gæti þurft skoða hvort það þurfi að breyta einhverju varðandi efnameðhöndlun sem hárið fær á hárgreiðslustofunni, hvort sem það er litun eða perm.
Djúpnæring getur bjargað mörgu en hún lagar aldrei slit. Það sem hún getur gert er að styrkja hárið svo það séu minni líkur á að það slitni. Eins og fyrir hár sem er orðið eins og á mynd c, þar sem hárið er alveg að byrja að slitna, mæli ég með Nourishing Hair Building Pak úr línu frá Davines sem heitir NaturalTech. Þessi djúpnæring er sérstaklega gerð til að næra illa farið hár og fyrirbyggja að hárið slitni. Ég mæli alltaf með að nota djúpnæringuna 1x í viku á meðan hárið er sem verst, en eftir að hárið er orðið gott er nóg að nota hana aðra hverja viku eða jafnvel bara 1x í mánuði. 
Hugsum svo vel um hárið ÁÐUR EN það byrjar að slitna!
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published