Permanent og náttúrulegar krullur


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á Hár á Akureyri-
Krullað hár er án efa skemmtilegasta hárgerðin að mínu mati. Mikið volume, mikið líf og mikið gaman!
Ég fæ stundum spurninguna:

"Hver er munurinn á permanent krullum og alvöru (nátturulegum) krullum?"

Stutta og augljósa svarið við því er að permanent krullur eru búnar til með efnum en náttúrulega krullað hár vex krullað. Mig langar hinsvegar að útskýra muninn aðeins betur.

Það er stefna og lögun hársrótarinnar sem ákvarðar lögun hársins. Ef hárið vex beint út frá hársverðinum verður hárið slétt og alveg sívalt. Eftir því sem hársrótin hallar meira verður hárið krullaðara og ávalara. Krullað hár er þar af leiðandi mjórra en slétt hár, af sama grófleika, og þess vegna viðkvæmara og fljótara að þorna, og þarf að fara extra varlega með það.


Hinsvegar erum við svo heppin að lifa á 21. öldinni þar sem búið er að finna upp, og fullkomna, efni sem krulla hárið.

Permanent krullur eru öðruvísi að því leiti að þær vaxa úr. Ef permanentið er vel gert eiga krullurnar að haldast í þangað til þær eru klipptar af, sama hversu langt líður. Oft slaknar aðeins á krullunum með tímanum og sumir lenda jafnvel í því að krullurnar leki alveg úr. Það geta verið margar ástæður fyrir því. T.d. illa gert permanent, ómeðtækilegt hár og jafnvel geta allskyns lyf haft áhrif á hversu vel tekst til. Permanent ferlið fer þannig fram að ný þvegnu hárinu er rúllað upp á spólur eða svampa, eftir því hversu kröftugar krullurnar eða liðirnir eiga að vera, og permanent vökva sprautað yfir. Permanent vökvinn slítur í sundur tengi inni í hárinu sem halda lögun hársins. Næst er vökvinn skolaður vandlega úr og permanent festir settur yfir. Þá eru lausu tengin búin að taka á sig lögun pemanent spólanna og festirinn endurbyggir þau í þeirri lögun og hárið verður krullað. Margir eru smeykir um að hárið skemmist ef það er sett permanent í það, en í dag eru efnin sem notuð eru í permanent ferlinu orðin það góð að það ætti ekki að gerast ef rétt er farið að. 

Þó svo að náttúrulega krullað hár og permanent krullur séu alls ekki eins er dagleg meðhöndlun að mörgu leiti svipuð. Vegna sterku efnanna sem eru notuð þegar permanent er gert þarf að hugsa alveg jafn vel um það eins og náttúrulegar krullur. Báðar gerðir þurfa gott raka sjampó og næringu, og gott að setja góða leave-in næringu eða olíu í hárið áður en það þornar. Margar krullubínur tala um hvað hárið á þeim er úfið og erfitt að hafa stjórn á því. Þá er gott að nota krullukrem eða gel, og hársprey. Til þess að hárið verði ekki úfið þurfa öll mótunarefni að fara í hárið blautt eða rakt. Ég er sjálf með permanent krullur og uppáhaldið mitt þessa dagana er að spreyja fyrst Curl Revitalizer og klípa síðan Curl Controller í hárið, bæði frá Davines. Síðan spreyja ég smá hárspreyi yfir þurrt hárið ef ég er að fara eitthvað fínt eða er að eiga slæman hárdag. Um leið og maður fer svo að fikta í eða greiða þurrt krullað hár verður það úfið, þess vegna er lang best að greiða það á meðan næringin bíður í hárinu. 

Mörgum, þar á meðal mér, finnst óþarfi að hreinsa allaf öll krulluefni úr hárinu alla daga. Fyrir þá vil ég mæla með Cleansing Cream frá Davines. Það er í stuttu máli næring sem hreinsar samt allra mestu óhreinindin úr hárinu. Þetta notar maður bara eitt og sér en það er samt nauðsynlegt að eiga gott sjampó og næringu til að nota stundum. Jafnvel að dekra hárið með djúpnæringu þegar maður þvær almennilega hárið.

Bestu kveðjur,
Ísey


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published