Litur um lit


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á Hár á Akureyri-
Þegar pantaður er tími í litun á stofu er gjarnan spurt hvers konar litameðferð viðkomandi er að leitast eftir. Skiljanlega vita ekki allir hvaða litameðferð hentar þeim best eða hvaða áhrif litirnir hafa á hárið. Algengustu litunar efni sem hársnyrtar nota eru 100% litur, skol og aflitun og mig langar að segja ykkur aðeins betur frá þessum efnum. 

100% litur

Þegar 100% litur, eða permanent color, er borinn í hárið byrjar efnið á að taka náttúrulegan lit úr hárinu og festir nýjan lit í hárinu. Þetta litarefni festist það vel í hárinu að það nær að þekja allt, meðal annars þrjósku gráu hárin, og erfitt getur reynst að ná litnum aftur úr hárinu ef breyta á um lit. Þá sérstaklega ef lýsa á hárið. 100% litur getur lýst hárið um 3 tóna eða allt að 5 tóna þegar notaðir eru sérstakir high-lift litir. Hins vegar þarf alltaf að bera lit reglulega í rótina til þess að viðhalda jöfnum lit í hárinu.
Kostir þess að nota 100% lit:
-Þú getur breytt hárlitnum mikið og varanlega.
-Þekur vel grátt hár.
-Endist lengi. 
  Gallar við að nota 100% lit:
  -Það kemur áberandi rót.
  -Getur farið illa með hárið ef það er oft litað.
   Davines hárlitur litur litun á stofu

   Skol

   Þegar um skol er að ræða er bæði til semi-permanent og demi-permanent litur. Semi-permanent litur fer aðeins inn í ysta lag hársins, fjarlægir engin litarefni sem eru fyrir í hárinu og þvæst úr á 4-12 þvottum. Demi-permanent litur, sem ég sjálf nota mest sem skol, fer lengra inn í hárið en fjarlægir þó ekki náttúrulegu litarefnin í hárinu. Hann endist lengur, eða 12-20 þvotta. Vegna þess að skol fjarlægir ekki náttúrulegu litarefnin úr hárinu, eins og 100% litur gerir, þá verður hárið aftur eins og það var þegar skolið hefur dofnað úr hárinu. 
   Kostir þess að nota skol:
   -Þvæst úr hárinu, ekki eins mikil skuldbinding.
   -Fer betur með hárið en 100% litur. 
    Gallar við að nota skol:
    -Getur ekki lýst hárið.
    -Þekur grátt hár illa eða ekkert.
    -Engar róttækar breytingar í boði með skol.
     davines hárlitur view skol

     Aflitun

     Aflitunarefni er frábrugðið hinum litarefnum að því leyti að aflitun tekur bara lit úr en setur engin litarefni inn í hárið í staðinn. Þegar hár lýsist, hvort sem það er náttúrulega í sólinni eða með einhverskonar efnameðhöndlun, fer það frá því að vera dökkt, síðan appelsínugult, svo gult þar til að það verður alveg hvítt. Þegar hárið er komið á það stig að vera hvítt er það mjög nálægt því að vera ónýtt. Þess vegna er yfirleitt sett skol (tóner) yfir hárið eftir að það er lýst með aflitun, svo hægt sé að leiðrétta litinn. Fyrir nokkru síðan skrifaði ég færslu um aflitun og hvaða áhrif hún hefur á hárið, hægt er að lesa betur um það hér
     Kostir þess að nota aflitun:
     -Eina leiðin til að ná dökku hári alveg ljósu eða hvítu.
     -Yfirleitt kemur fallegri lýsing en ef notaður er 100% litur. 
      Gallar við að nota aflitun:
      -Fer illa með hárið.
      -Hárið tekur illa við bæði litar og næringarefnum eftir aflitun.
       Davines aflitun
       Að lokum má taka fram og ræða lengi um allskonar mismunandi aðferðir til að nota þessi litarefni. Hægt er að nota þá á óteljandi vegu, þó algengast sé að heillita, þar sem notað er sama litarefni yfir allt hárið, eða nota þessi efni í strípur, hvort sem á að dekkja eða lýsa hárið. Þar fyrir utan er hægt að bera lit í með óteljandi mismunandi aðferðum og jafnvel nota sitt á hvað, í partalitanir eða einhverskonar sköpunargleði.
       Bestu kveðjur,
       Ísey

       Leave a comment


       Please note, comments must be approved before they are published