Langar þig að breyta til?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Nú þegar nýtt ár er gengið í garð og flestir búnir að fá nóg af öllu sem tengdist síðasta ári eru sumir sem horfa á sig í speglinum og þrá breytingu. Oftar en ekki er fljótlegast og einfaldast að breyta hárinu en stóra spurningin er hvernig. Sumir eru djarfir og leyfa hársnyrtinum algerlega að ráða hvað verður gert, en flestir vilja hafa einhverja skoðun á þessu. Margir hinsvegar gleyma því, eða átta sig ekki á, hvað það er margt í boði. Breyta klippingunni, lita, dekkja, lýsa, perma, slétta, eða blanda þessu saman!
Ný klipping er frábær leið til að fá algerlega nýtt útlit en einnig fylgir því mikil breytingatilfinning að vera með nýja klippingu. Hvort sem verið er að stytta mjög sítt hár um góða 20 cm eða breyta stuttri klippingu í öðruvísi stutta klippingu þá er alltaf jafn gaman að renna fingrunum í gegn um hárið og finna breytinguna og geta jafnvel breytt, og vonandi einfaldað, hár-rútínuna á morgnanna. Hinsvegar getur verið snúið að ákveða hvernig á að breyta klippingunni. Margir eiga mjög erfitt með að sjá fyrir sér hvort ákveðnar klippingar fari þeim vel, en stundum er lang skemmtilegast á láta bara vaða. Hárið vex aftur og í versta falli eru þetta mistök sem læra má af. Til eru allskonar ‘reglur’ varðandi hvaða klippingar og greiðslur fara hverju andlitsfalli, og auðvelt er hægt að leita svara varðandi það á google og pinterest, en þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta þitt hár og þitt útlit, þannig að ef þú vilt prófa eitthvað út úr kortinu þá skaltu bara láta vaða.
Ákvörðunin að lita hárið er að öllu leiti áhættuminni en að breyta um klippingu. Ef litun mistekst eða fer viðkomandi ekki vel er yfirleitt hægt að laga það en að sama skapi fylgir því minni breytingatilfinning þar sem maður finnur voðalega lítið fyrir nýlituðu hári nema þegar horft er í spegil. Hinsvegar er það gott fyrir sálina að vera sáttur með það sem er fyrir framan mann í speglinum og þá getur verið gaman að lita hárið. Til eru óteljandi litir og endalausar leiðir til að bera hann í hárið. Til að nefna nokkrar er hægt að heillita, partalita og strípa, en það er bara toppur ísjakans, því þar fyrir neðan eru allskonar leiðir til að blanda litum saman og blanda saman litaaðferðum. Þannig að það er ekki skrítið að þetta geti verið flókin ákvörðun. Lang best er hins vegar að vera með hugmyndir í hausnum eða jafnvel á myndum sem þú getur sagt eða sýnt hársnyrtinum þínum sem velur í framhaldinu hvaða liti og aðferð er best að nota. Oft getur líka verið gaman að leyfa hársnyrtinum að ráða. Hann gæti spurt þig samt hvort þú viljir lýsa eða dekkja hárið og hvort þú viljir halda litnum náttúrulegum eða fara út í meiri liti eins og rauða eða fjólu, þannig að vertu undirbúin(n) fyrir það.
Davines the eternals litað hár ljóst hár hárlitur hárgreiðslustofur
Permanent er að mínu mati lang skemmtilegasta leiðin til að breyta um stíl. Þá færðu rosa mikla breytingatilfinningu og þú þarft algerlega að breyta um hárrútínu og í (eiginlega) öllum tilfellum verður hún einfaldari. Yfirleitt er bara nóg að bleyta hárið, skella smá krullukremi í það og þú ert tilbúin í daginn, auk þess hvað það er einfalt og flott að gera messy snúða með krullað hár. Vandamálið er hinsvegar að hár tekur mis vel við permi. Það endist mis lengi, það krefst mikillar þolinmæði að láta það vaxa úr og það fer ekkert öllum vel og ekki öllu hári vel. Permanent á að haldast í  þar til það vex niður og er klippt af, svo þetta er dálítil skuldbinding, en ef maður fílar þetta er nóg að fara í perm á 3-6 mánaða fresti. Annar ókostur permanents er að það fer ekkert rosalega vel með hárið og það er alls ekki mælt með því að gera permanent í hár sem hefur verið aflitað eða strípað. En ef hárið er vel með farið fyrir permanent og vel hugsað um það eftir á eru litlar líkur á að permið eyðileggi hárið. 
davines permanent perm herraperm krullur krullur.is hársnyrtir hárgreiðslustofur
Sléttunarmeðferðir, eins og keratín-sléttumeðferð, eru alltaf að verða vinsælli. Með keratín-sléttumeðferð verður hárið glansandi, slétt og laust við allt frizz. Það endist í um 6 mánuði ef hugsað er vel um hárið milli meðferða en þú gætir þurft að vera á hársnyrtistofunni í allt að 4 tíma í hvert skipti ef þú ert með mikið hár, því þetta er tímafrekt verk og nauðsynlegt að vanda til verka svo útkoman verði jöfn og glansandi. Það er hinsvegar ekki mælt með því að barnshafandi konur geri þetta því í flestum keratín-sléttumeðferðum er efni sem heitir Formaldehyde sem getur reynst skaðlegt þegar því er andað inn.
Svo er eitt annað sem má minnast á, en það eru hárlengingar. Það getur verið skemmtileg lausn fyrir þá sem eru óþolinmóðir en hinsvegar geta þær farið rosalega illa með hárið ef ekki er vel hugsað um það eða ekki vandað nóg til verka þegar það er sett í eða tekið úr. 
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er engin töfra lausn eða leið til að ákveða hvernig þú vilt hafa hárið. Þetta er bara spurning um að stökkva í djúpu laugina og prófa og vera trúr sjálfum þér. Ekki láta samfélagið eða aðra nákomna ráða því hvernig þú lítur út. Hvort sem þú vilt algerlega leyfa hársnyrtinum að ráða og þú verður ánægð(ur) með hvað sem kemur út úr því svo lengi sem það er vel gert eða hefur með þér mynd eða hugmynd í kollinum sem hársnyrtirinn getur tekið mið af svo útkoman verði eins og þú vilt hafa. Bæði getur verið mjög skemmtilegt. Vertu bara þú sjálf(ur) og gerðu það sem þú vilt!
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published