Hvað gerir aflitun við hárið?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á Hár á Akureyri-
Aflitun er eitt mest notaða efni á hárgreiðslustofum í dag. Hvort sem það er fyrir nokkrar ljósar strípur, alveg platinum hvítt eða jafnvel bara til að leiðrétta litinn í hárinu. Möguleikarnir eru endalausir. Aflitun er mjög sterkt efni sem getur eyðilagt hárið ef ekki er farið rétt að. Ljóskurnar þekka líklega fyrirlesturinn frá hársnyrtinum sínum um hvað aflitun getur eyðilagt hárið, en mig langar að útskýra aðeins betur hvað verður til þess að hárið eyðilegst.
HÁRIÐ ÞENST ÚT. Um leið og aflitun er borin í hárið byrjar hún að opna ysta lag hársins, af þremur. Þar fyrir innan kemst aflitunin að litarefnum hársins, hvort sem það eru náttúruleg litarefni eða áður litað. 
LITAREFNI FER ÚR HÁRINU. Þegar aflitunin hefur opnað ysta lag hársins er meginlag hársins berskjaldað, það hefur að geyma meirihluta litarefna hársins. Það fer eftir magni og þéttleika þessara litarefna hversu dökkt eða ljóst hárið er. Eftir því sem litarefnin eru fleiri og þéttari, og hárið dekkra, tekur lengri tíma að ná öllum litarefnum úr því. 
HÁRIÐ VERÐUR OPNARA EN ÁÐUR. Þegar þetta er búið er hárið enn mjög opið og á erfitt með að halda í sér efnum, bæði litarefnum og næringarefnum. Þegar það gerist er hætta á að hárið þorni mikið og teygjanleiki þess minnkar, sem eykur slit ef ekki er farið varlega þegar hárið er greitt. 
OF MIKIL AFLITUN. Ef hárið er aflitað of mikið getur aflitunin opnað hárið of mikið og náð að skemma merg hársins, innsta lag þess. Þá brotnar hárið og skilur eftir slitna enda. Þetta getur líka gerst ef ekki er hugsað nógu vel um hárið á milli aflitana. Þegar hárið er orðið svona mikið opið þá er nauðsynlegt að minnka notkun hitatækja á hárið, ekki greiða eða þurrka harkalega og nota góðar uppbyggjandi vörur í hárið. 
HÁRSAGAN ÞÍN. Þetta er mikilvægt skref áður en byrjað er að aflita hárið. Hefur hárið þitt verið litað áður og hvað er langt síðan? Hefur það verið aflitað/strípað áður? Hvað gerir þú með hárið dagsdaglega? Sléttir þú, blæstu eða notar mikið af efnum í hárið? Þetta eru allt atriði sem þarf að hafa í huga ef þú ætlar að lýsa hárið og halda því heilbrigðu. 
ALDREI AFLITA HEIMA. Þó svo að vinkona þín hafi aflitað hárið sitt heima og hafi tekist vel til og hárið virðist lítið skemmt þá er ekki sjálfsagt að það takist hjá þér þó þú notir sömu efni. Það er svo margt sem spilar inn í, eins og hársagan þín, grófleiki hársins, hversu dökkt hárið er fyrir og svo margt fleira. Það er ekki til ein uppskrift af aflitunarferli sem hentar öllum. Plús öll þau dæmi sem maður hefur heyrt þar sem fólk endar með helminginn af hárinu á sturtugólfinu og efnabruna á hársverðinum. Það er ekki þess virði. 
MÐHÖNDLUN MILLI AFLITANA. Að hugsa vel um hárið á milli þess sem það er aflitað spilar stóran þátt í að halda því heilbrigðu. Að nota gott sjampó og næringu og djúpnæra hárið reglulega getur hjálpað gífurlega. Ég mæli með að djúpnæra hárið á tveggja vikna fresti, jafnvel einu sinni í viku ef hárið er illa farið.
Ég hef núna verið að nota The Circle Chronicles frá Davines. Fyrir mikið efnameðhöndlað hár, eins og aflitað, mæli ég sérstaklega með The Renaissance Circle úr þeirri línu. Það besta við þessar djúpnæringar er að þær eru seldar í litlum pakkningum, nánst prufustærð, sem endist þó í nokkur skipti þannig að maður er ekki að eyða fullt af peningum í djúpnæringu sem skemmist uppí skáp. Best er að byrja á að þvo hárið vel. Ef sjmapóið freyðir ekki þá skaltu skola og þvo það aftur. Þegar hárið er orðið hreint skaltu bera djúpnæringuna í og passa að það sé djúpnæring í öllu hárinu. Það er nóg að láta hana bíða eins lengi og leiðbeiningarnar segja til um en lengur er ekkert verra. Stundum sef ég með djúpnæringuna í hárinu, nota bara sturtuhettu eða plastpoka yfir. Þegar djúpnæringin er búin að vera nógu lengi í hárinu er hún skoluð úr og venjuleg næring borin í og látin bíða í smá tíma áður en hún er skoluð úr.
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published