Er hárið þitt þurrt og rafmagnað? Hvað veldur?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Þegar fer að hausta, fólk komið aftur í rútínu eftir sumarfrí og farið að dimma og kólna, tekur fólk oft eftir breytingum á hárinu og hársverðinum. Margir finna fyrir auknu rafmagni í hárinu, aðrir tala um hvað það er brothætt og sumir finna fyrir hvað hársvörðurinn verður þurr. Fæstir átta sig á því að hár þarf mismunandi umönnun eftir árstíma. Bæði vegna veðurfars og andlegs og líkamlegs álags. Hér er það sem þú þarft að hafa í huga fyrir veturinn.
Þurrt hár eftir sól og sumaryl
Meðal manneskja ver lengri tíma utandyra á sumrin en á veturnar. Með því fylgir lengri tími í sólinni og hitanum sem hefur áhrif á bæði húð og hár. Nú þekkja allir hvað gerist ef húðin er ekki varin geislum sólarinnar; hún brennur, missir teygjanleika með tímanum og í verstu tilfellum getur myndast húðkrabbi. Sólin hefur svipuð áhrif á hárið. Geislar sólarinnar veikja ysta lag hársins og komast þar með inn að byggingu hársins og byrja að eyðileggja próteinbönd hársins. Þar með missir hárið eiginleika sinn til að halda raka og teygjanleika sem gerir hárið líklegra til að slitna. Við þetta leysist líka úr litarefnunum í hárinu svo það lýsist. Ef ekkert er gert yfir sumarið til að fyrirbyggja sólarskemmdir á hárinu (já, það eru til þar til gerðar vörur til að fyrirbyggja sólarskemmdir) þá er líklegt að hárið sé orðið þurrt og brothætt þegar fer að hausta. 
 
Breytt veðurfar
Kuldinn á haustin og veturna plús skemmdirnar eftir sumarið lætur ysta lag hársins rísa, sem gerir hárið enn viðkvæmara fyrir kuldanum og rokinu. Þar með verður hárið rafmagnað og margir eiga erfitt með að eiga við það. Þá er nauðsynlegt að nota góðar og rakagefandi vörur í hárið, bæði til að laga það eftir sumarið og einnig til að verja það. Til þess mæli ég með OI línunni frá Davines. Hún gefur góða næringu og raka til daglegra nota án þess að hafa íþyngjandi áhrif á hárið. 
 
Líkamlegt álag
Margir nota sumarið til að njóta, slappa af og hafa gaman. Þegar allt dettur svo aftur í rútínu getur það verið erfitt fyrir líkamann að aðlagast. Allt í einu verður meira að gera, bæði virka daga og um helgar og margir huga að því að ná af sér grill- og bjór-kílóunum og breyta þá bæði mataræði og hreyfingu. Allar þessar breytingar hafa þau áhrif á líkamann að hann þarf að breyta starfsemi sinni og þá situr hárið á hakanum með að fá þau næringarefni sem það þarf. Þetta getur leitt til þess að hárið verður líflaust og brothætt og það getur jafnvel farið að þynnast. Yfirleitt er þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því þar sem þetta ástand varir aðeins þar til líkaminn hefur náð að aðlagast nýrri rútínu.  
Andlegt álag
Eftir alla sólina, hitann og slökunina yfir sumarið getur það farið illa í geðið á mörgum þegar sólartímum fækkar, loftið kólnar og rútínan tekur við. Þá er mikilvægt að hlúa að sjálfum sér og fylla upp í þann tíma, sem annars færi í að njóta góða veðursins, með því að gera það sem manni finnst gaman. Skammdegisþunglyndi og vanlíðan af öllu tagi getur haft sýnileg áhrif á hárið, bæði vegna þess að ef okkur líður illa nennum við ekki að hugsa um hárið og einnig vegna þess álags sem leggst á heilann þegar okkur líður illa. Rétt eins og stress getur leitt til hárloss getur vanlíðan haft sömu áhrif.  
Ég segi að haustið er tíminn til að njóta. Kertaljós, kósý og rólegheit. Dekra við hárið með Davines og endurbyggja það eftir sumarið og undirbúa það fyrir veturinn. Hlúa að líkamanum og sálinni og byrja að hlakka til jólanna og skipuleggja jólagjafir. Því jólin verða komin og farin áður en við vitum af!
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published