Allt sem þú þarft að vita um sjampó, næringu og hárþvott


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Hárþvottur, það að velja rétt sjampó og næringu og hversu oft eigi að djúpnæra hár eru tíð umræðuefni á mörgum hársnyrtistofum. Það er margt sem getur vafist fyrir fólki í þessum málum og þá sérstaklega hvaða sjampó og næring er best fyrir hvern og einn. 
Lang best er að spyrja hársnyrtinn þinn hvernig sjampó er best fyrir þig. Hann/hún ætti að hafa skoðað hárið þitt og hársvörð á meðan þú varst í klippingu, þekkja vel vörurnar sem eru seldar á stofunni og geta sagt þér hvað hentar þér og þínu hári best. Hinsvegar ef þig vantar vörur en ekki klippingu eða vilt hafa einhverja hugmynd um hvað þig vantar áður en þú ferð af stað í verslunarleiðangur þá hef ég smá ráð til að auðvelda ferðina.
Ef hársvörðurinn er heilbrigður verður auðveldara að halda hárinu heilbrigðu. Þess vegna er mikilvægast að velja sjampó sem hentar hársverðinum. Hægt er að fá sjampó sem hjálpar til við að halda allskonar vandamálum í hársverðinum í skefjum. Hvort sem hann er þurr, framleiðir extra mikla fitu eða hvort vandamálið sé slæm flasa eða psoriasis þá er yfirleitt hægt að finna eitthvað sem hjálpar. Ef ekkert er að hrjá hársvörðinn þá skoðar maður hvernig ástand hársins er. Ef hárið er heilbrigt þá er nóg að nota eitthvað létt sjampó sem þvær hárið samt vel. Ef hárið er þurrt eða mikið slitið er hægt að fá sjampó sem hjálpar næringarefnum að smjúga inn í hárið. Athugið samt að engar vörur laga slitna enda! Aðeins er hægt að fyrirbyggja að endar slitni. Einnig eru til sjampó sérstaklega fyrir krullað, úfið, flatt eða líflaust hár og svo margt fleira. Þegar þú hefur myndað þér skoðun á hvað hársvörðurinn eða hárið þarf þá verður ekkert mál að fá ráðleggingar á stofu hvaða sjampó er best fyrir þig. Einnig er gott ef vandamál eru í hársverðinum og hárið sjálft illa farið að eiga tvö sjampó. Annars vegar fyrir hársvörðinn og hinsvegar fyrir hárið, og nota þau til skiptis. 
Natural Tech Sjampó frá Davines
Að velja næringu finnst mér ekki alveg jafn snúið. Ég er mikið fyrir það að nota þá næringu sem passar við sjampóið, en það er þó ekki nauðsynlegt. Stundum verður maður að bregða út af þeim hugsunarhætti, eins og þegar notast er við sjampó fyrir hársvörðinn. Oftar en ekki fylgir engin sérstök næring með hársvarðarsjampóum og í raun yfirleitt engin ástæða til að nota næringu í hársvörðinn í þeim tilfellum. Nauðsynlegt er þó að setja næringu í endana, amk í sítt hár, og velja hana þá eftir ástandi hársins. Einnig getur skipt máli hvort næring sé létt eða þung. Þung næring hentar alls ekki fyrir fólk með þunnt eða fíngert hár. Þá leggst það bara niður og verður að engu. Erfitt getur verið að átta sig á hvaða næringar eru þungar eða léttar, en starfsmaður á hárstofu ætti að geta aðstoðað þig með það. 
Essential hárnæringar frá Davines
Djúpnæringu, eða hármaska, ættu allir þeir sem nota stíf efni í hárið daglega, eru með mikið efnameðhöndlað hár (litað, aflitað, permað o.s.fv.) eða einfaldlega bara sítt hár að nota reglulega. Hár í slæmu ástandi ætti að vera djúpnært einu sinni í viku, jafnvel oftar, en heilbrigðu hári dugar djúpnæring á tveggja vikna fresti eða sjaldnar. Auðvitað þarf ekkert allt hár djúpnæringu, eins og td. stutt hár sem er klippt reglulega, en allir hafa gott af því að dekra við sjálfa sig reglulega. Þegar kemur að því að velja djúpnæringu er ástand hársins það eina sem þarf að hafa í huga. Er hárið í slæmu ásigkomulagi eða þarftu bara djúpnæringu til að dekra aðeins við hárið og halda því heilbrigðu? Þegar þú hefur myndað þér skoðun um það getur þú fengið ráðleggingar á næstu stofu hvaða djúpnæring hentar þér.
TCC The Circle Chronicles hármaskar frá Davines
Þá er komið að því að ræða hvernig á að þvo hárið. Margir segja að það sé nauðsynlegt að nota alltaf tvisvar sinnum sjampó í hverri sturtuferð. Það er ekki satt. Ef sjampóið freyðir í öllu hárinu þá er hárið orðið hreint. Hinsvegar ef það freyðir ekki allstaðar þá skaltu skola og nudda sjampói í það aftur. Örfá sjampó innihalda reyndar ekki efni sem freyða. Gott er að nudda skipulega yfir allan hársvörðinn til að vera viss um að ná öllum óhreinindum úr. Best er að þvo hárið eins sjaldan og maður kemst upp með, einu sinni til tvisvar í viku td., því fitan sem hársvörðurinn framleiðir er mjög góð til að halda hársverðinum góðum og hárinu heilbrigðu. Þess á milli er hægt að skola hárið og jafnvel setja bara næringu í það ef endarnir eru þurrir og þurfa smá hressingu. Sumir eiga erfitt með að fækka hárþvottum vegna þess að á meðan hárið er þvegið alla daga framleiðir hársvörðurinn fitu í takt við það. Þannig að það getur tekið smá tíma að venja hársvörðinn við að framleiða minni fitu. Á meðan það gerist er þolinmæði og þurrsjampó þín bestu vopn! Þó þarf að fara hóflega með þurrsjampóið, því það getur þurrkað hárið og kæft hársvörðinn. En aftur að hárþvottinum. Eftir að sjampóið er skolað úr er alltaf nauðsynlegt að setja næringu og láta hana bíða í hárinu! Sjampó býr yfir þeim eiginleika að opna ysta lag hársins svo það nái að þvo hárið vel og einnig til þess að efnin úr næringunni eigi auðveldara með að smjúga inn í hárið. Ef hárinu er ekki lokað aftur, með næringu, verður það veikara og slitnar frekar með tímanum. Sumir kjósa þó (stundum) að nota enga næringu því ef hárið er skilið eftir opið þá verður það stamara og auðveldar fólki að lyfta hárinu og móta, eins og td. að krulla það eða blása lyfting í það. 
Þegar hárið er svo dekrað með djúpnæringu er hárið fyrst þvegið vel með sjampó og nauðsynlegt að ná öllum óhreinindum úr svo engin fyrirstaða verður fyrir djúpnæringuna að vinna sína vinnu. Þegar búið er að skola sjampóið úr er gott að þerra aðeins hárið með handklæði, bera síðan djúpnæringuna í og passa að hún þeki hvert einasta hár. Það er alveg nóg að fara eftir þeim biðtíma sem stendur á pakkningunni, en lengur er ekkert verra. Oft set ég bara poka eða sturtuhettu á hausinn og horfi á nokkra þætti eða mynd, tek til eða læt hana jafnvel bíða í yfir nótt. Þegar þú ert tilbúin í næsta skref er djúpnæringin skoluð úr hárinu og venjuleg næring sett í og látin bíða í smá stund. Þetta verður til þess að efnin úr djúpnæringunni lokist inni í hárinu. Þegar búið er að skola næringuna úr og þerra hárið finnst mér frábært að setja olíu í endana svo hárið verði alveg 100% silkimjúkt.
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published