Hárlos


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Meðal manneskja missir um 100 hár daglega og í flestum tilfellum vex nýtt hár í staðinn. Það er hins vegar ýmislegt sem getur orðið til þess að það gerist ekki; allt frá andlegu stressi til alvarlegra sjúkdóma. Óskrifuð regla segir að örvænta ekki fyrr en þú hefur áttað þig á hvað veldur þessu. Oftast er ástæðan meinlaus og lausnin mjög einföld en í sumum tilfellum er eitthvað alvarlegra undirliggjandi. Til þess að vinna bug á auknu hárlosi þarf í fyrsta lagi að vita mögulegar ástæður þess og siðan skoða hvað er hægt að gera í því.
Aldur og gen 
Þetta er kannski augljósasta orsök hárþynningar. Við vitum öll að þegar við eldumst getur hárið þynnst og í raun ekkert hægt að gera í því. Misjafnt er hvenær það byrjar og þar spila genin mestan þátt. Ef þig grunar að þetta sé ástæðan fyrir því að þér finnst þú vera að missa hárið skaltu skoða hárið hjá þínum nánstu. Eru foreldrar þínir með þunnt hár? Hvenær byrjaði hárið hjá ömmu og afa að þynnast? O.s.fv. Enn hefur ekki verið fundin lausn á þessari gerð þynningar.
Stress
Andlegt stress getur haft ótrúleg áhrif á allan líkamann. Það getur valdið höfuðverkjum, magaverkjum, orkuleysi og svo mörgu öðru, eins og auknu hárlosi. Við þessu er einföld lausn. Slappaðu af. Finndu út úr því hvað er að valda þér stressi og losaðu þig við það. Fyrir marga getur það verið snúið og oft fer það eftir aðstæðum, en hver og einn verður að finna hvað virkar best fyrir sig.
Daglegt áreiti á hárið
Mikið áreiti á hárið getur leitt til aukins hárlos. Til dæmist ef hárið er fléttað í stífar fastar fléttur alla daga, sléttað alla daga með lélegu sléttujárni eða ef það er alltaf greitt mjög harkalega. Mikið áreiti daglega getur jafvel leitt til skallabletta. Þess vegna er svo mikilvægt að fara rétt að og varlega þegar hárið er greitt. Sem betur fer er mjög auðveld lausn á þessu, sem er einfaldlega að breyta daglegri hárrútínu þinni. Til dæmis ef þú sléttar mikið hárið skaltu annaðhvort fá þér betra sléttujárn eða minnka að slétta. Ef þú ert alltaf með hárið stíft uppsett er gott að losa aðeins um eða breyta til svo það sé ekki alltaf áreiti á sömu svæðin.
Óheilbrigður hársvörður
Vandamál hársvarðarins eru vandamál hársins, hvort sem um er að ræða smá vandamál eða stærri. Til dæmis getur mikil flasa orðið til þess að hársvörðurinn kafnar og nær þá ekki að mynda ný hár. Hársjúkdómar eins og psoriasis eða sveppir í hársverðinum geta gert það sama. Hægt er að byrja að leita lausna á hársnyrtistofum eða apótekum, en ef ekkert virkar þaðan þarf að leita til læknis. Einnig getur verið nóg að eyða aðeins meiri tíma í hárþvottinn og losa vel um allt í hársverðinum með því að nudda vel með sjampói og svo næringu til að koma blóðflæðinu af stað.
Líkamlegt álag
Álag á líkamann, mikið eða lítið, getur aukið hárlos. Til dæmis langvarandi smávægileg veikindi eða vöðvabólga hafa áhrif, jafnvel snöggt þyngdatap þegar maður byrjar að taka sig á getur leitt til aukins hárlos. Yfirleitt byrja ný hár að vaxa um leið og álaginu á líkamann hefur verið létt og hárið verður aftur eins og það var. Ef engin ný hár myndast er gott að fara til læknis og fá að vita hvort sé ekki örugglega allt í lagi. 
Vítamín- eða járnskortur
Járn og mörg vítamín eru nauðsynleg við myndun nýrra hára. Til eru allskyns hárvítamínblöndur sem eiga að auka myndun nýrra hára en þegar öllu er á botninn hvolft gera þau ekki neitt nema að það sé skortur á einhverjum efnum í blóðinu. Vítamín virka þannig að ef tekið er of mikið af þeim þá annað hvort renna þau bara í gegnum kerfið eða setjast upp í líkamanum og gera ekkert gagn. Of mikið járn í blóðinu getur meira að segja orðið lífshættulegt. Svo það er lang best að fara í blóðprufu og fá að vita hvað vantar svo þú endir ekki á því að eyða fullt af peningum í vítamín sem gera ekki neitt.
Hormónar
Hormónabreytingar hafa áhrif á hárvöxt. Mæður taka oft eftir því að hárið á þeim þynnist fljótlega eftir barnsburð, en það er vegna breytinga á magni estrógen hormónsins. Þetta getur staðið yfir í allt að 4 mánuði eftir fæðingu áður en ný hár fara að vera sjáanleg. Breytingar á starfsemi skjaldkirtilsins getur líka orðið til aukins hárlos. Skjaldkirtillinn framleiðir mikilvægan hormón sem stjórnar efnaskiptum líkamans sem hefur bein áhrif á myndun nýrra hára. Ef ójafnvægi er á honum er í sumum tilfellum hægt að laga hann með breyttu mataræði en fljótlegra er að fá vandamálið staðfest af lækni sem getur þá útvegað þér lyf.
Sjúkdómar
Ef ekkert virkar og hárið heldur áfram að þynnast skalt þú fara til læknis. Sjúkdómar af ýmsu tagi geta valdið þynningu á hári og stundum er það fyrsta einkenni sjúkdómsins. Eins geta allskyns lyf og lyfjameðferðir, auk geislameðferða, leitt til aukins hárloss eða algers hármissis og lítið hægt að gera í því. 
Eins og komið hefur fram sprettur hárið í flestum tilfellum aftur þegar búið er að vinna bug á því sem veldur hárþynningunni. Í slæmum tilfellum mæli ég með Energizing línunni frá Davines:
Mamma mín greindist með beinmergskrabbamein í september 2018. Svo í apríl 2019, eftir erfiða lyfjameðferð, rökuðum við af þessi nokkur hárstrá sem eftir voru. Þegar hún byrjaði í lyfjameðferð lét ég hana hafa Energizing sjampó og Energizing superactive, sem er serum sem borið er í hársvörðinn. Í þessum vörum eru efni sem bæði örva hársvörðinn og koma í veg fyrir meira hárlos. Ég trúi því að með því að byrja að nota þessi efni strax í upphafi lyfjameðferðar, áður en hárið fór að þynnast, hafi hún sloppið við að verða alveg sköllótt. Nú, tæpu ári seinna - í febrúar 2020, er hárið á henni að verða komið í sambærilega sídd og fyrir meðferð og það er þéttara og líflegra en var fyrir. (Skrifað og birt með góðfúslegu leyfi mömmu)
Auðvitað er misjafnt hvernig þetta virkar á hvern og einn en í svona tilfellum er mikilvægt að muna að þó hárið sé horfið þá er svo margt annað í lífinu mikilvægara.
Bestu kveðjur,
Ísey

1 comment


  • Margrét Harðardóttit

    Ég er í lyfjameðferð
    Og myndi ekki saka að prófa


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published