Góð ráð gegn flösu


Flestir vita hvað flasa er (eða halda allavega að þeir viti það), en færri vita að það eru til margar mismunandi gerðir af flösu og misjafnt hvernig er tekið á henni. 

Flasa er í flestum tilfellum skaðlaus heilsunni og hárinu, oft skaðar hún kannski frekar geðheilsuna. En í slæmum tilfellum getur flasan "kæft" hársvörðinn og þá er hætta á auknu hárlosi.

Hægt er að skipta flösu upp í þrjá hópa:

 1. "Góð" flasa 
 2. Alvarleg flasa
 3. Hársjúkdómar

Góð Flasa
Flasa er auðvitað aldrei "góð", en á þessu stigi má deila um hvort hársvörðurinn sé bara þurr eða hvort um flösu sé að ræða. Hægt er að greina það eftir því hversu stórar húðflögurnar eru sem falla. Ef húðflögurnar eru fínar og hvítar þá eru allar líkur á að hársvörðurinn sé bara þurr og líklega nóg að skipta yfir í sjampó sem gefur meiri raka og góða næringu. Ef flögurnar eru stórar er um flösu að ræða og nauðsynlegt að finna sér gott flösusjampó. En til þess að rata á rétta sjampóið þarf fyrst að vita hvort flasan sé þurr eða olíukennd. Þurri flösu má lýsa sem stórum flögum úr hársverði og geta þær verið hvítar eða hálfgegnsæjar. Þegar flasan er olíukennd hafa þessar sömu flögur blandast fitu og þær klumpast upp við hársvörðinn og virðast gulleitar.

Hinsvegar er Davines með frábært flösusjampó í Naturaltech línunni sem vinnur bæði gegn olíukenndri og þurri flösu. Það heitir Purifying og eins og önnur flösusjampó er það hannað með það í huga að vinna í hársverðinum og gerir lítið fyrir enda hársins nema að hreinsa þá. Þess vegna mæli ég með að nota góða næringu í endana á eftir sjamóinu og nota sjampóið ekki meira en tvær vikur í senn. Taka þá pásu frá því og nota eitthvað annað í viku eða tvær, eða bara þangað til flasan sprettur upp aftur.

Alvarleg flasa 
Flasan er orðin alvarlegri þegar hún er farin að dreifa sér í augabrúnirnar, skegg eða annað og hárið jafnvel farið að þynnast vegna þess að flasan er að taka yfir. Ef flösusjampó virkar ekki (gott að gefa því tvær vikur í notkun áður en farið er að örvænta) er spurning um að prófa hvort eitthvað annað sjampó henti betur. Einnig er Davines með Purifying gel úr sömu línu og ég nefndi áðan sem gott er að nota samhliða sjampóinu í slæmum tilfellum. Það er borið í hársvörðinn, eða þau svæði sem flasan er hvað verst, nuddað varlega og látið liggja í 10 mín áður en það er skolað úr. Ef ekkert af þessu virkar er kominn tími til að kíkja til læknis.

Hársjúkdómar
Hársjúkdómar, eins og td. psoriasis, er orðið mun stærra vandamál. Ég hef heyrt dæmi um að sum flösusjampó, eins og td. Purifying, hjálpi til við minniháttar psoriasis vandamál en oftast þarf að leita til læknis til að halda því niðri. Til eru lyf og krem sem læknir getur skrifað upp á gegn allskyns hársjúkdómum.

Góð ráð
Það eru ýmsar leiðir til að reyna að koma í veg fyrir flösu:

 • Blása þykkt hár svo það liggi ekki lengi blautt á hársverðinum. 
 • Passa uppá hreinlæti og nota góðar hárvörur.
 • Vera ekki endalaust að fikta í hárinu með höndunum.
 • Nota ekki hárbursta, húfur og annað frá öðrum.
 • Þvo hjálma og annað höfuðfat reglulega.
 • Vera úti í sólinni. Passa samt að nota sólarvörn, líka í hársvörðinn og hárið.
 • Slappa af. Stess getur aukið flösumyndun.
 • Taktu bætiefni sem innihalda B vítamín og selen. 

Bestu kveðjur,
Ísey - hársnyrtir á Upp á hár


1 comment


 • Baldur

  Vel gert


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published