Ert þú að nota sólarvörn í hárið?


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Amber hárstofu á Akureyri-

Nú er loksins að opnast umræðan um hvaða áhrif sólin hefur á hárið, ekki bara húðina, sem er algjörlega tími til kominn! Við vitum að áhrif sólarinnar sjást vel á húðinni. Hún verður rauð og með tímanum brún, og með árunum getur húðin orðið hálf leðurkennd ef ekki er hugsað nógu vel um hana og borin á viðeigandi sólarvörn. Sólin hefur einmitt líka skaðleg áhrif á hárið ef ekki er gert neitt til þess að verja það eða byggja það upp aftur eftir að vera úti í sólinni.

Davines SU sólarvörn fyrir hár

Hárið verður matt og frizzy

Sólin hefur (augljóslega) fyrst áhrif á hárið utan frá, þ.e. ysta lag hársins sem hefur fræðiheitið cuticle. Þar sem þetta lag er aðallega byggt upp af keratíni, og er þar með sterkasta lag hársins, er mikilvægt að það skemmist ekki. Það sem sólargeislarnir gera er að brjóta upp þetta ysta lag hársins sem verður til þess að hárið hættir að glansa og verður með tímanum mjög frizzy. Sem er þó ekki það versta því þegar sólargreislarnir hafa náð þessu hafa þeir greiða leið inn að næsta lagi hársins, sem kallað er börkur eða cortex. 

Hárið missir lit

Börkur hársins hefur að geyma litarefni hársins, bæði náttúrulegan og litaðan lit en ýmislegt hefur áhrif á hversu fljótt liturinn dofnar. Það hefur allt að gera með gerð hársins og ástand þess áður en sólargeislarnir komust að hárinu. Náttúrulega ljóst hár eða grátt hár er sérstaklega viðkvæmt fyrir sólargeislum því það inniheldur minna eða ekkert litarefni, eða melanín, og er því fljótt að upplitast og verður jafnvel gult. Ástand hársins fyrir spilar einnig stóran þátt hvað þetta varðar, því öll litun hefur skaðleg áhrif á hárið, bara mis mikið. Afltun eða ljósar strípur eru til dæmis meðhöndlanir sem fara illa með hárið og þá sérstaklega ysta lag þess og þeim mun veikara sem ysta lag hársins er því fyrr komast sólargeislarnir inn að berkinum og byrja að leysa upp melanínið í hárinu.

Hvað er hægt að gera?

Þú getur annað hvort, eða bæði, verið með hatt eða eitthað sem hylur hárið eða notað vörur í hárið sem eru sérstaklega gerðar til þess að verja hárið gegn sólargeislum, eins og SU línan frá Davines. Þar er að finna vörur bæði fyrir húð og hár. Hárvörurnar eru sjampó og body wash, næringarmaski og hármjólk. Hármjólkin er fullkomin til að verja hárið gegn sólargeislum og endurbyggja hárið eftir á. Þess vegna getur hún bæði verið notuð í þurrt og blautt hárið eftir að hárið er þvegið með sjampóinu og endurnært með maskanum sem bæði byggja hárið upp eftir áhrif sólarinnar.

Davines Su sólarvörn fyrir hár

Það er vert að minnast á umhverfisáhrif sem oft eiga sér stað samhliða útiveru í sólinni. Hér heima erum við kannski í sundi eða úti í pottinum og það er jafnvel hvasst og ryk í loftinu. Ef við erum í fríi í sólarlöndum bætist kannski við þetta sandurinn á ströndinni og sjórinn. Öll þessi umhverfisáhrif magna upp skaðleg áhrif sólarinnar og er þess vegna nauðsynlegt að skola hárið vel eftir daginn og jafnvel þvo það oftar, en þó alltaf að muna eftir næringunni!

Sól og hárvöxtur

Sólin hefur þó ekki bara skaðleg áhrif. Húðin framleiðir sjálfkrafa d-vítamín þegar hún kemst í snertingu við sólargeisla og eins og kemur fram í grein sem ég skrifaði fyrir þó nokkru síðan spilar d-vítamín stóran þátt í að viðhalda framleiðslu keratíns í hársrótinni. Þannig getur sólin haft góð áhrif á hárið, en þar sem húðin spilar stærstan þátt hér þá verðum við að vera viss um að passa hárið í sólinni ef við viljum hafa það glansandi og fallegt.

Í stuttu máli má segja að sólargeislar og þessi umhverfisáhrif hafi sömu skaðlegu áhrif á hárið og aflitun gerir, nema að því leyti að aflitunin virkar hraðar. Þar sem við vitum öll hversu hræðilega skaðleg áhrif aflitun getur haft á hárið og hársvörðinn verðum við að passa hárið okkar þegar það er útsett fyrir svipuðum aðstæðum.
 
Gleðilegt sumar!
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published