Er húðin þín tilbúin í veturinn?


Þegar fer að kólna úti er margt sem við þurfum að huga að varðandi húðumhirðu. Til að byrja með þurfum við að spyrja okkur sjálf að því hvernig við hugsuðum um húðina yfir sumarið, hlýddum við tilmælum fagmanns og notuðum sólarvörn? Eða fór húðin illa í sólinni? Ef við pössuðum ekki upp á húðina og notuðum vörn getum við farið að taka eftir talsverðum litabreytingum og sólarskemmdum, auknum þurrk og jafnvel nýjum línum og hrukkum í andliti.

Til að takast á við þetta þurfum við að byrja á því að endurnýja húðina. Við þurfum að djúphreinsa hana reglulega og nota góðan rakagefandi eða nærandi maska á eftir og jafnvel bæta ávaxtasýrum inni í daglega húðumhirðu. Við mælum þá líka með að leita til fagmanns og fara í ávaxtasýrumeðferð eða nærandi andlitsmeðferð allt eftir því hvað fagmaðurinn þinn ráðleggur.

Í auknum kulda fer húðin að þorna enn meira sem þýðir að við þurfum að auka raka og næringu til húðar og velja okkur ríkari krem. Nauðsynlegt er að djúphreinsa húðina allavega einu sinni í viku og nota á eftir góðan maska sem hentar okkar húðgerð. Stundum verður þurkurinn það mikill að viðkvæmni getur myndast og þá þurfum við að skipta yfir í vörur fyrir viðkvæma húð.

En það er ekki bara húðin í andliti sem þornar meira í veðrabreytingum eins og við þekkjum svo vel hérna á Íslandi heldur líka húðin á líkama og sérstaklega varirnar. Við megum því ekki gleyma að djúphreinsa líkamann og varirnar og nota rík líkamskrem og góða varasalva. Pössum svo þegar við förum í bað eða sturtu að það er gott að hafa vatnið volgt frekar en sjóðheitt til að hreinsa ekki náttúrulegar olíur af húðinni.

Húðin á höndunum getur verið extra viðkvæm þessa dagana með aukinni sprittnotkun og tíðni handþvottar. Gott er að hafa í huga að vera alltaf í hönskum eða vettlingum utandyra þegar er farið að kólna og nota vel af handáburði og naglaolíu.

Að lokum er mikilvægt að muna að við þurfum líka að nota sólavörn á veturna þar sem sólin getur líka valdið okkur skaða þó að kalt sé úti og auðvitað að passa að drekka vel af vatni og taka inn olíur til þess að viðhalda góðum raka í líkamanum.


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published