Dundur og dekur í samkomubanni


-Gestablogg frá Ísey, hársnyrti á Upp á hár á Akureyri-
Nú þegar margir eru fastir heima næstu vikur og geta lítið sem ekkert farið út á meðal fólks er mikilvægt að huga að heilsunni, líkamlegu og andlegu. Ég hef sjálf þurft að vera heima í viku og lagðist svo lágt á sunnudagskvöldi að googla “What to do when you are bored out of your mind?”, sem er ekki hollt. Listarnir sem ég fann voru mis áhugaverðir og hugsaði með mér að líklega væru fleiri í þessari stöðu. Svo ég ákvað að taka saman það sem mér fannst áhugaverðast á þessum listum auk nokkurra fróðleiksmola beint frá mér.
Nýtt áhugamál
Það getur verið áskorun fyrir marga að finna sér nýtt áhugamál. Marga skortir hugmyndaflug, aðrir eru nú þegar með svo mörg eða tímafrek áhugamál að þeir hafa ekki tíma í fleiri. En að sökkva sér inn í nýtt áhugamál, eða efla þau sem maður hefur nú þegar, getur stytt daginn til muna. Þú getur til dæmis byrjað að lesa, spila tölvuleiki, bakað, heklað, litað, púslað og svo margt fleira. Ekki er verra ef hægt er að hafa alla fölskylduna með, eins og td. að spila, elda, baka saman eða mála málverk saman.
Bað
Hvað er notalegra en heitt bað? Jú auðvitað freyðibað, kerti, hvítvín og netflix. Það að stilla upp símanum eða spjaldtölvunni þannig að þú getur horft á rómantíska mynd, sötrað á hvítvíni og mallað í baði er uppskrift að mjög notalegri og slakandi stund. Mundu bara eftir að drekka vel af vatni á eftir, heita vatnið þurrkar húðina.
Ganga
Göngutúr úti í hreina loftinu léttir lund og styttir daginn alveg helling. Þó svo að þú farir bara út í korter er bókað mál að þú kemur kátari heim og sátt(ur) með sjálfa(n) þig að hafa klárað göngutúrinn. Félagsskapur gerir allt skemmtilegra. Ef þú getur tekið vin, maka eða börnin þín með þér verður göngutúrinn enn skemmtilegri!
To-do listi
Það að gera sér verkefnalista fyrir daginn hjálpar á svo marga vegu. Þegar hægt er að haka við klárað verk á listanum verður maður svo ánægður með sjálfan sig og fyllist orku til að halda áfram. Þetta kemur í veg fyrir að allur dagurinn fari í sófachill. Hægt er að taka þennan punkt enn lengra með því að setja okkur stærri markmið. Þegar fólk hefur lítið fyrir stafni og ÞARF í raun ekki að gera neitt er hollt og gott fyrir sálina að setja sér markmið sem hægt er að vinna að. Bæði dagleg, eins og að fara alla daga út að ganga í 45 mín, og einnig langtíma. Td. hef ég sett mér þau markmið að bæta hlaupaþolið, fullkomna súrdeigsgerðina og klára önnina í meistaranáminu. Allt eru þetta stór markmið sem ég get unnið að daglega til þess að ná þeim.
Jóga
Mig hafði lengi langað að prófa jóga. Þannig að þegar líkamsræktarstöðvarnar lokuðu hugsaði ég með mér að nú væri tíminn. Ég fann app sem heitir Down Dog sem mér finnst alveg frábært. Venjulega þarf að borga fyrir það en vegna aðstæðna í heiminum verður það frítt allan apríl (held ég). Það að enda morgunæfinguna eða skokkið á smá jóga og slökun gefur mér orku og einbeitingu til að halda áfram með daginn. Mæli með!
Nýtt look
Það er svo gaman að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi þegar maður hefur allan tímann í heiminum til að læra nýja tækni eða mistakast. Hægt er að fara á youtube og læra að gera nýtt makeup look eða læra að gera fléttur og hárgreiðslur. Pældu í hvað verður gaman að mæta aftur til vinnu með splunkunýtt look þó svo að hár- og snyrtistofur séu lokaðar. Ég tala nú ekki um að panta sér nýja augnskuggapallettu eða nýtt járn og dunda sér að prófa sig áfram með það. Ég hef svo oft heyrt konur tala um að langa svo að læra að gera sléttujárnskrullur og bylgjur eða læra að gera allskonar fléttur. Nú er tíminn!
Tiltekt
Þá er ég ekki að meina vorhreingerningu! Það er ekki komið vor. Ég meina að minnka óþarfa drasl í kringum sig sem enginn notar (declutter). Minnka magnið í fataskápnum, koma skipulagi á skápana í eldhúsinu og jafnvel ef vel liggur á manni að taka geymsluna í gegn og losa sig við það sem aldrei hefur verið snert. Þegar minna óþarfa drasl er í kringum mann og allt snyrtilegt er svo mikið auðveldara að létta af sér stressi og ná að slaka á heima hjá sér. 
Spa day
Nú er tíminn til að huga að húð og hári. Fullkomin uppskrift af spa day (fyrir mér) væri svona: Þvo hárið, þerra það og bera djúpnæringu í það, jafnvel setja sturtuhettu yfir. Láta síðan renna í heitt freyðibað og malla þar lengi á meðan djúpnæringin vinnur í hárinu. Þegar puttarnir eru orðnir að rúsínum er kominn tími til að skola hárið og búbblurnar af líkamanum. Næst væri geggjað að setja einhvern hreinsimaska á andlitið og þar á eftir rakagefandi maska og jafnvel hægt að lakka neglurnar á milli. Að lokum finnst mér nauðsynlegt að setja andlitsolíu á andlitið og góða hárolíu í hárið. 
Ég veit ekki hvað ég get mælt oft með The Circle Chronicles hármöskunum frá Davines en ég ætla að gera það einu sinni enn! Þar er að finna 7 mismunandi hármaska í litlum 50 ml umbúðum, svo allir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar þeirra hári og þurfa ekki að skuldbinda sig að nota stóra 250 ml dollu af maska sem gleymist uppi í skáp. Nú hefur bæst við þessa vörulínu andlitsmaski sem gefur rosalega góðan raka og er einstaklega auðveldur í notkun. Þetta er svokallaður sheet face mask þar sem þú einfaldlega tekur örþunna andlitsmótaða skífu úr pakkningunni og lætur liggja á andlitinu í 15 mín. Eftir þann tíma tekur þú skífuna af andlitinu og nuddar restinni af efninu inn í húðina.
Á meðan á samkomubanninu stendur fá allir sem kaupa tvo hármaska úr The Circle Chronicles línunni á bpro.is The Quench Circle andlitsmaskann að gjöf með þannig að nú geta allir dekrað við sig heima við! 
Að lokum: Hvað sem þú gerir, EKKI KLIPPA EÐA LITA HÁRIÐ HEIMA!
Bestu kveðjur,
Ísey

Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published