Að velja sér sitt sjampó


Hversu margir eiga bara eina týpu af sjampói?

Það er bara alveg í lagi ef hún hentar þér og þú ert ánægð/ur með hárið þitt OG hársvörðurinn er í lagi líka, en annars gætir þú þurft að endurskoða úrvalið í baðskápnum eitthvað. Í þessum skrifum ætla ég aðeins að renna yfir mína hlið á þessum málum og hversu mikilvægt er að velja rétta vöru fyrir hvert og eitt ástand eða vandamál. 

Það var oft sagt að það ætti að skipta um hárvörur reglulega og við það yrði hárið betra. Ég vil meina að þessi pæling að skipta um sjampó (þegar ég segi sjampó, þýðir það sjampó og hárnæring) hafi komið upp fyrir ansi mörgum árum síðan þegar úrvalið var hugsanlega ekki svona mikið eins og er í dag hjá okkur, og gæði varanna mun minni en í dag. Líklega var ástæðan fyrir þessum ráðleggingum sú að hárið var jafnvel að yfirhlaðast af óæskilegum efnum sem gerðu það að verkum að hárið þoldi ekki meira og varð betra við það að breyta. Einnig gæti það spilað inn í að eins og með húðina okkar, ef við vöndum ekki valið á því sem við notum verður hún ekki eins og við viljum eða líður best með. 

Ef við setjum þetta aðeins í samhengi þá má segja að það sé nánast sama hvaða krem við notum fyrir húðina okkar, ef við hreinsum hana ekki á undan, bæði yfirborðs hreinsa og 1-2x í viku að djúphreinsa hana, þá gera þau ekkert gagn. Við erum ekki bara að hreinsa heldur að gera þeim flottu og rándýru vörum sem við eigum leið til að komast inn og vinna á því sem við ætluðumst til af vörunni. Og þetta er nákvæmlega eins með hárið.

Algengir hlutir sem bera oftast á góma þegar spurt er „segðu mér frá hárinu þínu?“ eru eftirfarandi:

Það er svo þurrt
Það er svo flatt
Það er svo líflaust 
Það er svo úfið
Það brotnar svo mikið
Það er svo krullað
Það er svo slétt
Það er allt of mikið
Það er svo fíngert
Liturinn lekur alltaf svo fljótt úr
Flasa 
Hárlos
Kláði í hársverði
Feitur hársvörður

Þetta eru bara nokkur atriði sem mér dettur strax í hug og líklega tengir þú við eitthvað af þessu, jafnvel nokkur af þessum atriðum, það er algengast. Og þá gefur það alveg auga leið að eitt sjampó er ekki nóg til að fullnægja þínum þörfum. 

Hér á landi erum við nokkuð dugleg við að lita á okkur hárið. Ef við tökum ljóst hár sem dæmi þá það er í 90% tilfella þurrt, mikið þurrt eða jafnvel bara mjög mikið eða illa farið. Svo af því að við búum á ÍSlandinu góða þá sveiflast hitastigið mikið sem gerir það að verkum að við fáum þurran hársvörð. Þarna erum við komin með hár sem þarf amk 2 týpur af sjampói.

Önnur týpan er sérstaklega fyrir hársvörðinn en gerir lítið fyrir hárið sjálft og oft á tíðum gerir það jafnvel bara leiðinlegra. Þess vegna notum við það fyrst og nuddum vel í hársvörðinn, leyfum að bíða í 3-5 mín og erum ekkert að baksa við a nudda því út í endana. Fyrir þetta verð ég að mæla með sjampói frá davines sem ég held reyndar að allir á Íslandi þekki og heitir Purifying sjampó. Það gerir krarftaverk. Þar skal fara eftir leiðbeiningum og nota í nokkrar vikur 2-3x í viku, minnka svo og hætta alveg eftir ca 6 vikur þar til blessuð flasan fer aftur að kíkja. Ef hún gerir það er gott að taka Purifying aftur upp.

Í þessari sömu sturtuferð, eftir að hafa notað sjampóið sem er sérstaklega fyrir hársvörðinn og skolað það úr, tekur þú það sem ég kalla SJAMPÓIÐ ÞITT, það er það sem er að gera eitthvað fyrir HÁRIÐ þitt.

Við vorum að tala um ljóst, frekar þurrt hár. Segjum bara að það sé týpískt íslenskt hár - mætti vera aðeins þykkara og kraftmeira. Þá ættum við að nota daglega sjampó sem gefur raka. Það er gott að gera það að reglu að þegar um sjampó og næringu er að ræða að byrja að bera í, nudda eða klípa hvernig sem er en að byrja neðst á hárinu og vinna sig upp að hársverði, því í endana viljum við helst fá rakann eða viðgerðina. Fyrir þessa hártýpu myndi ég jafnvel mæla með að eiga þriðja sjampóið sem er mun léttara eða eitthvað sem við köllum Volume eða Thickening. Það væri gott að nota inn á milli með hinu ef við viljum alls ekki þyngja hárið neitt, kannski að fara í boð, þá eru engir sénsar teknir. 

Fyrir nánast allt hár sem er eitthvað efna meðhöndlað verð ég að mæla með að nota öðru hvoru hármaska eða djúpnæringu. Notaleg stund á sunnudegi með maska í hárinu og jafnvel andlitinu í leiðinni getur ekki klikkað. 

Það sem ég er að reyna að koma frá mér í þessu er að við verðum að eiga fleiri en eina vöru sem vinnur hver um sig á sitthvoru dæminu. 

Það kemur oft fyrir að splæst er í rándýrt sjampó og eftir 2-3 vikur hefur þú á tilfinningunni að hárið sé ekki að höndla það. Það getur bara stundum alveg verið að hárið sé búið að fyllast af þeim góðu virku efnum sem sagt var að væru í vörunni. Þá er hún hugsanlega aðeins of mikið fyrir þitt hár EÐA að þú ættir að eiga annað með sem er léttara.

Ég ætla að taka nokkur styttri dæmi:

Sjampó eins og Colour Stay frá label.m ættu að vera mest seldu sjampóin alltaf, því svo margir eru með litað hár. Þau læsa litinn inni í hárinu þannig að hann rennur ekki eins úr en þau á ekki að nota eingöngu því í þeim eru efni sem herða og styrkja og ef við erum með þurrt hár viljum við nota vöru á móti sem gefur góðan raka. 

Hár sem á til að brotna þarf að passa að hlaða ekki um of af vörum með prótíni því þá getur það jafnvel brotnað hraðar. Gott er að vera með góða raka vöru með en prótín er nauðsynlegt til að byggja upp kraft og styrk. 

Það er mjög algengt að þeir sem eru með krullað eða liðað hár haldi að þeir eigi nánast bara að nota krullu sjampó. Auðvitað og það er flott og gerir það að verkum að krullurnar verði meiri, en eins og þeir vita sem eru búnir að stúdera þetta vel er ansi margt sem þarf að huga að og er það efni í aðra og lengri grein. Það getur verið gaman að nota eitthvað sem heitir Anti Frizz eða Smoothing sjampó í krullað hár því það mýkir og róar. Þarna eru tvö dæmi um mismunandi sjampó og auðvitað helling annað hægt að nota. 

Svo þetta endi sem blogg en ekki heil bók ætla ég að hætta núna en vona að þið hafið lært eitthvað af þessu. Aðal málið er að eiga nokkrar vörur til að velja úr og breyta til eftir tilefni, nota gæðavöru þó hún kosti meira (en við vitum að við þurfum minna magn af gæða vöru) og síðast en ekki síst að fá ráðleggingar hjá þínum fagmanni og nýta tímann vel á meðan er verið í klippingu og fara yfir þetta. Það er svo gaman að fá réttar ráðleggingar og vera ánægður með hárið sitt. 

Baldur Rafn


Leave a comment


Please note, comments must be approved before they are published